Lög félagsins

Lög Skátafélagsins Ægisbúa (Stofnað 29. mars 1969)

1. grein - Nafn og starfssvæði

Félagið heitir Skátafélagið Ægisbúar. Heimili þess er í Reykjavík og starfssvæði er Reykjavík og Seltjarnarnes.

2. grein - Aðild að BÍS

Félagið er aðili að Bandalagi íslenskra skáta (BÍS) og starfar eftir lögum og grunngildum þess.

3. grein - Boðun aðalfundar

Aðalfundur félagsins skal haldinn að jafnaði í febrúarmánuði ár hvert og skal til hans boðað skriflega með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Ef meirihluti stjórnar óskar þess er hægt að boða til aukaaðalfundar. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Minnst einni viku fyrir aðalfund skal félagsstjórn senda sveitarforingjum og lögráða félögum kynningu á eftirfarandi í gegnum sömu dreifileið og boðað var til fundar:

 • Drög að dagskrá aðalfundar.
 • Drög að ársskýrslu.
 • Drög að ársreikningi.
 • Tillögur til lagabreytinga.

4. grein - Réttur til setu á aðalfundi

Rétt til setu á aðalfundi hafa:

 1. Með atkvæðisrétti:
  1. Allir fullgildir lögráða félagar.
  2. Tvö ungmenni (13-17 ára) skipuð af foringjaráði.
 2. Með málfrelsi og tillögurétt:
  1. Allir starfandi skátar með aðild að BÍS.
  2. Foreldri og forráðamenn fullgildra félaga.

4. grein - Dagskrá aðalfundar

Eftirtaldir dagskrárliðir skulu a.m.k. koma fyrir í dagskrá aðalfundi hverju sinni:

 1. Setning aðalfundar.
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 3. Ársskýrsla.
 4. Lagðir skulu fram reikningar félagsins.
 5. Lagabreytingar.
 6. Kosning í stjórn félagsins.
 7. Kosning tveggja skoðunarmanna.
 8. Önnur mál.
 9. Slit aðalfundar.

5. grein - Starfshættir stjórnar

Stjórn félagsins skal skipuð 3 – 7 lögráða einstaklingum, að auki skal félagsforingi hafa náð 25 ára aldri. Í stjórn sitja a.m.k félagsforingi, ritari og gjaldkeri. Stjórn félagsins heldur fundi þegar þurfa þykir. Einnig skal félagaþrennan starfa innan félagsins og skal embætti dagskrárforingja og sjálfboðaliðaforingja skipað af stjórn félagsins. Dagskrár- og sjálfboðaliðaforingjar geta átt sæti í stjórn eða ekki en hafa rétt til að sitja stjórnarfundi nema þegar stjórn þarf að ræða sérstök trúnaðarmál.

6. grein - Kosning stjórnar

Kosning stjórnar skal vera leynileg og skal stjórn kosin til tveggja ára í senn. Kosning félagsforingja og allt að tveggja meðstjórnanda skal fara fram á oddaári og kosning gjaldkera, ritara og allt að tveggja meðstjórnanda á jöfnu ári. Við kosningu stjórnarmanna er æskilegt að þeir séu ekki allir af sama kyni. Auk þess skulu skoðunarmenn reikninga kosnir á aðalfundi.

7. grein - Binding félagsins

Til að binda félagið þarf samþykki meirihluta stjórnar.

8. grein - Ófyrirséð starfslok

Láti stjórnarmaður af störfum eða ef um langvarandi fjarveru stjórnarmanns er að ræða á milli aðalfunda, skal félagsráð skipa í stöðuna fram að næsta aðalfundi þar sem kosið er í stöðuna. Staðan getur verið fyllt af meðstjórnanda eða utanaðkomandi einstaklingi. Ef um starfslok eða langvarnadi fjarveru meðstjórnanda er að ræða er félagsráði í sjálfsvald sett hvort skipað er í stöðuna.

9. grein - Sjálfboðaliðar

Allir foringjar og embættismenn félagsins skulu skrifa undir sjálfboðaliðasamning og sæmdarheit til að geta starfað hjá félaginu.

10. grein - Ráð

Í félaginu starfar félagsráð, sem samanstendur af stjórn og sveitarforingjum félagsins. Félagsráð skal funda a.m.k. einu sinni á önn. Einnig starfar foringjaráð í félaginu sem í eiga sæti sveitarforingjar og aðstoðarsveitarforingjar ásamt dagskrárforingja og sjálfboðaliðaforingja. Foringjaráð skal funda reglulega, að jafnaði mánaðarlega. Dagskrárforingi stjórnar fundum foringjaráðs og boðar þá.

11. grein - Reikningar

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Skoðun reikninga félagsins er í höndum tveggja skoðunarmanna. Þeir mega ekki sinna öðrum störfum fyrir félagið sem snerta fjármál og skulu eiga greiðan aðgang að öllu bókhaldi félagsins.

12. grein - Slit á félaginu

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með auknum meirihluta greiddra atkvæða og renna eignir þess til Bandalags íslenskra skáta. Endurtekin ákvörðun á aðalfundi 6 mánuðum seinna þarf til að staðfesta slit.

13. grein - Úrsögn úr BÍS

Ákvörðun um úrsögn félagsins úr BÍS skal taka á aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða. Endurtekin ákvörðun á aðalfundi 6 mánuðum seinna þarf til að staðfesta úrsögn.

12. grein - Lagabreytingar

Lögum þessum verður því aðeins breytt að 2/3 hlutar greiddra atkvæða á aðalfundi samþykki þá breytingu. Tillögur um lagabreytingar skulu berast til stjórnar félagsins a.m.k tveimur vikum fyrir áætlaðan fundartíma.

Lög þessi, sem sett voru 1989 og breytt á aðalfundi 7. ágúst 1997, 20. mars 2003, 11. mars 2009, 14. febrúar 2023 og 13. febrúar 2024 öðlast þegar gildi.